Sögustund punktur is flytur þér söguna Gullbrá og birnirnir þrír. Einu sinni voru þrír birnir sem áttu heima í litlu húsi inni í stórum skógi. Þetta voru stóri, sterki Bangsapabbi, Bangsamamma og Bangsi litli, sonur þeirra. Dag einn eldaði Bangsamamma hafragraut í stórum potti. Hún jós grautnum á diskanna þeirra en þar sem grauturinn var alltof heitur ákvað fjölskyldan að brega sér í stuttan göngutúr meðan hann kólnaði. Á sömu stundu var lítil stúlka á gangi í skóginum. Hún hét Gullbrá og hafði villst af leið. Hún kom auga á litla húsið inn á milli trjánna og ákvað að berja að dyrum. ,,Hmm, ætli að það sé enginn heima?'' Gullbrá litla var þreytt og þó að enginn kæmi til dyra ákvað hún samt að fara inn. Inni í húsinu tók grautarilmurinn á móti henni og hún gekk beint inn í eldhús. Þar sá hún sem grauturinn stóð á borði og fann hvað hún var ósköp svöng. Hún gekk að stóra disknum hans Bangsapabba og bragðaði á grautnum. ,,Æ, þetta er alltof heitt!'' sagði Gullbrá litla. Hún gekk að grautardisknum hennar Bangsamömmu og bragðaði á grautnum hennar. ,,Og þessi er nú aðeins of kaldur.'' sagði hún og bragðaði því næst á grautnum hans Bangsa litla. ,,Namm! Þessi er alveg passlegur.'' sagði hún og borðaði allan grautinn af disknum. Gullbrá var uppgefin eftir gönguna í skóginum og gekk nú inn í stofu til að hvíla sig. Fyrst settist hún í stólinn hans Bangsapabba. ,,Þessi stóll er nú alltof stór fyrir mig.'' sagði Gullbrá og settist í stólinn hennar Bangsamömmu. ,,Þessi stóll er alltof breiður fyrir mig.'' sagði hún og leit á litla ruggustólinn hans Bangsa litla. Hann sýndist öllu betri og þar fékk hún sér að lokum sæti. ,,Þessi er alveg passlegur fyrir mig.'' sagði hún og ruggaði sér fram og aftur. Allt í einu heyrðust brak og brestir, stóllinn brotnaði í sundur og Gullbrá datt beint á gólfið. ,,Æ, æ. Úh, ansans óheppni!'' sagði Gullbrá og geispaði. ,,O, ég þyrfti nú aðeins að leggja mig.'' Hún gekk upp stigann þar sem svefnherbergi bjarnanna var og lagðist upp í stóra rúmið hans Bangsapabba. ,,Hvurslags er þetta! Þetta rúm er alltof hart fyrir mig.'' Gullbrá ákvað að skríða upp í rúmið hennar Bangsamömmu. ,,Úff! Þetta rúm er nú alltof mjúkt, ég týnist bara hérna!'' sagði hún og skreið aftur niður á gólf. Hún lagðist að lokum í rúmið hans Bangsa litla. ,,Ah, hér er gott að vera!'' Augnlokin hennar sigu og eftir skamma stund var Gullbrá litla steinsofnuð en nú komu birnir þrír heim úr göngutúrnum. Þeir voru allir orðnir svangir og hlökkuðu til að borða grautinn sinn. Þeir sáu strax að einhver hafði komið inn í húsið þeirra. Bangsapabbi benti á grautardiskinn sinn. ,,Einhver hefur bragðað á grautnum mínum.'' sagði hann digrum karlarómi. ,,Einhver hefur bragðað á grautnum mínum.'' sagði Bangsamamma mildrum móðurrómi. ,,Og einhver hefur bragðað á grautnum mínum og étið hann upp til agna.'' sagði Bangsi litli blíðum barnarómi. Nú gengu birnirnir þrír inn í stofu. ,,Einhver hefur setið í stólnum mínum'' sagði Bangsapabbi digrum karlarómi. ,,Það hefur líka einhver setið í stólnum mínum'' sagði Bangsamamma mildum móðurrómi. ,,Það, það, það, það hefur einhver setið í stólnum mínum o-og brotið hann í tætlur!'' sagði Bangsi litli blíðum barnarómi. Nú gengu birnirnir upp stigann og inn í svefnherbergi. Bangsapabbi benti á rúmið sitt. ,,Einhver hefur legið í rúminu mínu.'' sagði hann digrum karlarómi. ,,Það hefur líka einhver legið í rúminu mínu.'' sagði Bangsamamma mildum móðurrómi en Bangsi litli starði steinhissa á rúmið sitt. ,,Einhver hefur greinilega legið í mínu rúmi og bara liggur þar ennþá!'' skrækti hann hátt en við það vaknaði Gullbrá af værum blundi. Henni dauðbrá að sjá þrjú bjarndýr stara á sig með undrunarsvip. Hún stökk á fætur og hljóp út úr húsinu eins hratt og fætur toguðu, langt inn í skóginn. Hún nam ekki staðar fyrr en hún var komin alla leið heim til sín. Hún fór aldrei aftur að húsi bjarnanna og enn í dag hafa þeir ekki hugmynd um hvaða stelpa þetta var sem laumaðist í húsið þeirra og sofnaði þar.