Read at a normal speed, as if you were reading for Icelanders and not for learners. Don't worry, this was put up online as a sample of the book at an Icelandic site that was selling it.
Upphafskaflinn í Vörninni
eftir Vladimir Nabokov
í þýðingu Illuga Jökulssonar:
Það sem honum fannst merkilegast var að frá og með mánudeginum yrði hann Lúsjin. Faðir hans — alvöru Lúsjin, gamli Lúsjin, rithöfundurinn — gekk út úr barnaherberginu með bros á vör, neri saman höndum (sem þegar var búið að bera á glært smyrsl fyrir nóttina), og tifaði mjúkum flauelsklæddum skrefum inn í svefnherbergi sitt.
Konan hans lá í rúminu. Hún reis upp við dogg og sagði: „Jæja, hvernig gekk þetta?“
Hann fór úr gráum náttsloppnum og svaraði: „Við höfðum það af. Hann tók því ósköp vel. Úff … nú er þungu fargi af mér létt.“
„En indælt …“ sagði konan hans og togaði að sér silkiteppið. „Guði sé lof, guði sé lof …“
Þetta var sannarlega mikill léttir. Allt sumarið — skammvinnt sveitasumar sem fólst aðallega í þrenns konar lykt: af liljum, nýslegnu heyi og þurru laufi — allt sumarið höfðu þau rökrætt það hvenær og hvernig ætti að segja honum þetta, og þau höfðu slegið því á frest hvað eftir annað, allt þar til nú í ágústlok. Þau höfðu hringsólað umhverfis hann og þrengt hringinn áhyggjufull smám saman en hann þurfti ekki annað en lyfta höfði og þá var faðir hans farinn að banka með uppgerðaráhuga á loftvogina, sem alltaf sýndi storm, en móðir hans sigldi eitthvað inn í djúp hússins, skildi allar dyr eftir opnar og gleymdi stórum, ótóttlegum bláklukkuvendinum á píanólokinu. Digurvaxna franska kennslukonan, sem las upphátt fyrir hann úr Greifanum af Monte Cristo (og gerði hlé á lestrinum öðruhvoru til að andvarpa af mikilli tilfinningu: „veslings, veslings Dantès!“), hún bauðst til þess að ganga sjálf á hólm við vandamálið, þó tilhugsunin um þá hólmgöngu fyllti hana óskaplegri skelfingu. Hann hafði enga samúð með veslings, veslings Dantès og þegar hann horfði upp á lærdómsríkt andvarp hennar pírði hann bara augun og reif teiknipappírinn sinn með strokleðrinu er hann reyndi að gera framstæðan barm hennar eins andstyggilegan og hægt var.
Mörgum árum síðar, þegar svo brá við að skyndilega rofaði til í huga hans, þá þyrmdi ánægjan yfir hann er hann minntist þessara klukkustunda við lestur úti á veröndinni, og kliðurinn úr garðinum endurnærði hann. Endurminningin var þrungin sólskini og sætu, blekkenndu bragðinu af lakkrísrúllum, sem hún hjakkaði sundur í smábita með pappírshníf og hvatti hann til að geyma undir tungunni. Og teiknibólurnar sem hann hafði einu sinni komið fyrir í körfustólnum, og áttu að stingast inn í spikfeitar lendar hennar með ógurlegum gauragangi, voru eftir á ekkert síðri en sólskinið og kliðurinn úr garðinum, og moskítóflugan sem sat sem fastast á húðflettu hné hans og lyfti alsæl blóðrauðum bakhlutanum. Tíu ára drengur þekkir hnén á sér vel, út í æsar — bólguna sem klæjaði svo í að hún hafði verið klóruð uns úr blæddi, hvítar rákirnar eftir neglur á sólbrenndri húð, og allar þær rispur sem bera vitni sandkornum, smásteinum og hárfínum trjágreinum. Moskítóflugan flaug burt og sneiddi hjá höggi hans; kennslukonan bað hann að vera ekki að þessu iði; æðislega einbeittur svo skein í ójafnar tennurnar — sem tannlæknir í Sankti Pétursborg hafði lagt yfir platínuspöng — og með niðurbeygt höfuðið með munkaklippingunni reif hann og klóraði staðinn þar sem hann hafði verið bitinn — og hægum hreyfingum, með vaxandi viðbjóði, teygði kennslukonan sig yfir opna teikniblokkina, að ótrúlegri skrípamyndinni.
„Nei, það er best að ég segi honum þetta sjálfur,“ svaraði Lúsjin eldri þegar hún lagði hikandi fram uppástungu sína. „Ég segi honum það seinna, leyfum honum að skrifa stílana sína í friði.
„Fæst er gott við að hafa fæðst,“ las Lúsjin eldri fyrir staðfastri röddu, skálmandi fram og aftur um kennsluherbergið. „Fæst er gott við að hafa fæðst.“
Og sonur hans skrifaði, næstum liggjandi fram á borðið og lét skína í málmspenntar tennurnar, og skildi bara eftir bil fyrir orðin „fæst“ og „fæðst“. Reikningurinn gekk betur: það var eitthvað furðu sætkennt við það hvernig löng tala, sem hann náði í skottið á með erfiðismunum, deildist á úrslitastundu, og eftir ótal ævintýri, nákvæmlega með nítján svo að ekkert stóð eftir.
Hann var smeykur um það, Lúsjin eldri, að þegar sonur hans kæmist að því hvers vegna nauðsynlegt væri að þekkja stofnendur Rússaveldis, þessa algerlega svipsnauðu Sineus og Trúvor, sem og töfluna yfir þau orð þar sem fyrir kom bókstafurinn „jat“, og helstu vatnsföll Rússlands, þá myndi drengurinn fá sams konar æðiskast og fyrir tveimur árum þegar marraði í stigum, brakaði í gólffjölum og koffortum var sveiflað til og frá er franska kennslukonan birtist í fyrsta sinn. En nú gerðist ekkert af því tagi; hann hlustaði rólegur; og þegar faðir reyndi að hengja hatt sinn á það skemmtilegasta og athygliverðasta við þetta allt saman og sagði meðal annars að hann yrði kallaður eftirnafni sínu eins og fullorðinn maður, þá fór sonur hans að roðna, blikkaði augum ákaft, kastaði sér upp í loft á koddann, opnaði munninn og velti höfði („Ekki engjast svona,“ sagði faðir hans kvíðinn, tók eftir fátinu á honum og bjóst við táraflóði), en fór ekki að gráta heldur faldi andlitið í koddanum, gaf frá sér andstutt hljóð með varirnar í koddaverinu, og stóð snögglega upp — krypplaður, heitur, með gljáandi augu — og spurði fljótmæltur hvort þau myndu líka kalla hann Lúsjin heima.
Og núna, þennan dumbungslega órólega dag, er þau voru á leiðinni á járnbrautarstöðina að ná lestinni til Sankti Pétursborgar, þá leit Lúsjin eldri, sem sat við hlið konu sinnar í opnum vagninum, á son sinn og var tilbúinn að brosa jafnskjótt og sá síðarnefndi sneri þrjóskulega niðurlútu andlitinu að honum, og hann velti fyrir sér hvers vegna drengurinn væri allt í einu orðinn svona „stífur“, eins og konan hans orðaði það. Hann sat á móti þeim í fremra sætinu, dúðaður í dökkan ullarfrakka, og á höfðinu sat skökk sjóliðahúfa sem enginn máttur í veröldinni hefði dirfst að hreyfa við eins og nú stóð á, og horfði út á hlið á gild birkitrén sem þutu framhjá eftir skurði sem var fullur af laufi þeirra.
„Er þér ekki kalt?“ spurði móðir hans þegar vegurinn beygði út að ánni og vindhviða feykti blíðlega til gráum fuglsfjöðrunum í hattinum hennar.
„Jú,“ sagði sonur hennar og horfði á ána.
Móðir hans mjálmaði eitthvað og ætlaði að teygja sig yfir til hans og hagræða frakkanum en þegar hún sá augnaráð hans kippti hún hendinni snarlega til sín aftur og lét sér nægja að gefa honum bendingu með fingrunum: „Hnepptu, hnepptu betur að þér.“
Drengurinn rótaði sér ekki. Hún sleikti varirnar til að hreinsa litinn af þeim — það var venja, næstum kækur — og leit á mann sinn í hljóðri bæn um stuðning. Hann var líka klæddur ullarfrakka, hendurnar í þykkum hönskum hvíldu á köflóttri ferðaábreiðu sem bungaði niður í dalverpi og hækkaði síðan dálítið á ný, upp að mitti litla Lúsjins.
„Lúsjin,“ sagði faðirinn með uppgerðarkátínu í rómnum, „ha, Lúsjin?“ og ýtti gætilega við syni sínum með fætinum undir teppinu. Lúsjin dró að sér hnén. Þarna birtast bjálkakofar bændafólksins, þök þeirra vaxin þykkum ljósum mosa, þarna er gamla vegarskiltið með máðu áletruninni (nafni þorpsins og fjölda „sálnanna“ sem þar búa), og þarna er þorpsbrunnurinn með skjólu sinni, svartri leðju og hvítfættri bóndakonu. Handan þorpsins fóru hrossin fetið upp hæðardrag og fyrir aftan og neðan þau kom í ljós annar vagn þar sem þær kúldruðust hlið við hlið, kennslukonan og eldabuskan, sem þoldu ekki hvor aðra. Ökumaðurinn smellti í góm og hrossin fóru aftur á brokk. Á litlausum himninum sveif kráka yfir kornrótinni.
Brautarstöðin var um það bil hálfa aðra mílu frá sveitasetrinu; henni var valinn staður þar sem vegurinn, sem hafði bylgjast mjúklega um furuskóginn, lá þvert yfir þjóðveginn til Sankti Pétursborgar og síðan lengra, yfir járnbrautarteinana, undir hliðgrindina og út í hið óþekkta.
„Ef þú vilt máttu leika þér að brúðunum,“ sagði faðirinn smeðjulega þegar sonur hans stökk út úr vagninum og starblíndi niður á jörðina, mjakaði aðeins til hálsinum sem ullin í frakkanum hans erti. Hann tók þögull við tíu kópeka peningnum sem að honum var réttur. Kennslukonan og eldabuskan skreiddust þunglamalega út úr seinni vagninum, önnur hægra megin, hin vinstra megin. Faðirinn tók af sér hanskana. Móðirin losaði andlitsblæjuna og hafði auga með tunnulaga burðarkarlinum sem var að sópa saman ábreiðunum þeirra. Snögg vindhviða ýfði faxið á hestunum og þandi út dumbrauðar frakkaermar ökumannsins.
Lúsjin, sem stóð allt í einu aleinn á brautarpallinum, rölti að glerkassanum þar sem fimm smábrúður með dillandi berar lappir biðu þess að peningur félli í rauf til að þær lifnuðu við og hringsnerust; en í dag biðu þær árangurslaust því vélin reyndist vera biluð og peningnum á glæ kastað. Lúsjin beið svolitla stund og snerist síðan á hæli og gekk út að enda brautarteinanna. Honum til hægri handar sat lítil stúlka á risastórum bala og borðaði grænt epli, olnbogi hennar hvíldi í lófanum. Vinstra megin stóð maður með legghlífar og hestasvipu í hendinni og horfði á skógarjaðarinn í fjarska þar sem fylgja lestarinnar myndi birtast innan fárra mínútna — hvítur reykjarstrókur. Beint fyrir framan hann, hinum megin við teinana, við hliðina á gulbrúnum hjólalausum annars farrýmisvagni, sem hafði skotið rótum í jörðinni og verið breytt í mannabústað, var bóndi að höggva eldivið. Allt í einu hvarf allt þetta í mistri táranna, augnlokin loguðu, hann gat ekki með nokkru móti þolað tilhugsunina um það sem brátt myndi gerast — pabbi hans með blævæng úr lestarmiðum í höndunum, móðir hans að telja töskur og koffort með augunum, lestin að ösla inn á stöðina, burðarkarlinn að leggja tröppu upp að pallinum til að eiga hægara með að komast upp á hann. Hann leit í kringum sig. Litla stúlkan var að borða eplið sitt; maðurinn á legghlífunum starði út í bláinn; allt var kyrrt. Hann gekk út að enda stöðvarpallsins eins og hann væri bara á rölti og tók síðan viðbragð; hann stökk niður nokkur þrep, og þar var troðningur, garður stöðvarstjórans, girðing, hliðgrind, furutré — síðan svolítið gljúfur og handan þess þéttur skógurinn.
Fyrst hljóp hann beint af augum gegnum skóginn, rakst utan í hvínandi burkna og rann til á rauðleitum liljublöðum — og húfan hans dinglaði aftan á hnakkanum á teygjubandinu einu, hnén voru heit undir ullarsokkunum sem hann hafði verið settur í fyrir ferðina til borgarinnar, hann grét á hlaupunum og ruddi út úr sér smámæltu barnabölvi þegar trjágrein slóst utan í ennið — og loksins nam hann staðar og settist másandi á hækjur sér svo að frakkinn huldi fótleggina.
Það var ekki fyrr en í dag, daginn sem þau héldu á hverju ári úr sveitinni til borgarinnar — dag sem í sjálfu sér var aldrei ljúfur, húsið fullt af gegnumtrekk og maður dauðöfundaði garðyrkjumanninn sem var ekki á þeim buxunum að fara neitt — það var fyrst í dag sem hann gerði sér fulla grein fyrir skelfingum þeirrar breytingar sem faðir hans hafði talað um. Fyrri haustferðir til borgarinnar virtust nú eintóm sæla. Morgungangan með kennslukonunni — alltaf eftir sömu götunum, eftir Nevskí-stræti endilöngu og síðan heim aftur, meðfram árbakkanum, hún yrði aldrei endurtekin. Ágætar gönguferðir. Stundum hafði hún stungið upp á því að þau færu fyrst eftir árbakkanum en hann þvertók alltaf fyrir það — ekki einvörðungu vegna þess að frá frumbernsku kunni hann vel að meta vanafestu, heldur fremur vegna þess að hann var ólýsanlega hræddur við fallbyssuna í Péturs- og Pálsvirki, við óskaplegt þrumuhöggið sem lét gluggarúðurnar í húsunum titra og gat sprengt í manni hljóðhimnuna — og hann kom því alltaf svo fyrir (með lymskulegum brögðum) að þegar klukkan sló tólf voru þau á Nevskí, eins fjarri fallbyssunni og hægt var — en ef hann hefði breytt gönguleiðinni hefði fallbyssukúlan náð honum beint fyrir framan Vetrarhöllina. Síðdegisdorm hans á sófanum var líka úr sögunni, er hann lá undir tígrisábreiðunni, drakk mjólkina sína úr silfurbolla sem gæddi hana hjartfólgnu bragði, og á slaginu þrjú ökuferð í blæjuvagninum. Í stað alls þessa kom eitthvað nýtt, óþekkt og þess vegna ógeðslegt; fjarstæður, fráhrindandi heimur þar sem kennslustundir voru frá níu til þrjú og herskari af strákum sem voru ennþá óttalegri en þeir sem höfðu fyrir stuttu — það var í júlí, hérna í sveitinni, meira að segja á brúnni — umkringt hann, miðað á hann tinbyssum og skotið að honum priklaga skeytum sem sogskálar úr gúmmíi höfðu af fláræði verið fjarlægðar af.
Skógurinn var hljóður og rakur. Þegar hann hafði grátið nægju sína lék hann sér dálitla stund að bjöllu sem tifaði taugaveikluð með fálmurum sínum, og skemmti sér svo dável við að kremja hana undir steini er hann reyndi að endurtaka upprunalegt, safamikið brakið í bjölluskelinni. Síðan tók hann eftir því að það var farið að úða. Þá stóð hann upp, fann kunnuglegan troðning og tók til fótanna, hnaut hvað eftir annað um rótarhnyðjur og í huga hans fæddist ófullburða hefndarþorsti; hann ætlaði aftur heim á sveitasetrið, ætlaði að fela sig þar og vera þar um veturinn og lifa á osti og sultu úr búrinu. Troðningurinn bugðaðist um skóginn í svo sem eins og tíu mínútur, lá niður að ánni, sem var þakin rigningargárum, og fimm mínútum síðar birtist sögunarmyllan með göngubrúnni þar sem sagið náði manni upp í ökkla, og stígurinn upp eftir, og síðan — gegnum berangurslega liljurunnana — húsið. Hann skreið meðfram veggnum, sá að dagstofuglugginn var opinn, klifraði upp eftir rennunni að grænni veggbrúninni og lét sig velta yfir sylluna. Þegar hann var kominn inn á dagstofugólfið beið hann og hlustaði. Daguerreomynd af móðurafa hans — svartir bartar, fiðla í höndum hans — starði niður til hans, en gufaði svo alveg upp, leystist sundur í hlífðarglerinu, strax og hann leit á myndina frá annarri hlið — en þá einmanalegu skemmtun lét hann aldrei undir höfuð leggjast að veita sér þegar hann kom inn í dagstofuna. Eftir að hafa velt vöngum svolitla stund, og brett upp efri vörina svo platínuspöngin á tönnunum hreyfðist upp og niður, opnaði hann hurðina varlega, hrökk í kút þegar hann heyrði gjallandi bergmálið sem hafði sest að í húsinu alltof fljótt eftir að eigendurnir hurfu á braut, og skaust síðan eftir ganginum og upp stigana alla leið upp á háaloft. Háaloftið var merkilegt; þaðan var hægt að horfa úr lítilli gluggaboru yfir stigann, brúnan bjarma handriðsins sem bylgjaðist fagurlega niður á við og hvarf í hálfrökkrið. Í húsinu var dauðahljótt. Skömmu seinna barst dauf símhringing að neðan, úr vinnuherbergi föður hans. Hringingar ar héldu áfram með hléum þó nokkra stund. Eftir það var aftur þögn.
Hann fékk sér sæti á kassa. Við hliðina á kassanum var annar alveg eins nema hvað hann var opinn og bækur í honum. Frúarreiðhjól stóð upp á endann inni í horni, grænt víravirki afturhjólsins var rifið og tætt; því hafði verið troðið milli óheflaðs borðs upp við vegginn og tröllaukins kofforts. Eftir svolitla stund var Lúsjin farið að leiðast, alveg eins og þegar hálsinn á manni er vafinn flóneli og manni er bannað að fara út. Hann snerti við gráum rykugum bókunum í opna kassanum og skildi eftir sig svört fingraför. Hjá bókunum lá fjaðrabolti með bara einni fjöður, stór ljósmynd (af hermannahljómsveit), sprungið skákborð og ýmislegt annað sem hann hafði lítinn áhuga á.
Þannig leið klukkustund. Allt í einu heyrði hann raddir og ískrið í útidyrahurðinni. Hann gægðist gætilega út um litla gluggann og sá föður sinn hlaupa upp þrepin eins og smástrákur og síðan, rétt áður en hann náði upp á stigapall, hentist hann jafnfljótt niður þau, baðandi hnjánum til beggja hliða. Raddirnar að neðan voru nú greinilegar; það voru brytinn, ökumaðurinn, vaktmaðurinn. Nokkru síðar lifnaði stiginn við á ný; í þetta sinn kom móðir hans eftir tröppunum og hysjaði upp um sig pilsið, en hún nam líka staðar áður en hún komst á stigapallinn, hallaði sér þess í stað yfir handriðið og fálmandi höndum í allar áttir hrökk hún til baka. Að lokum, eftir smástund til viðbótar, komu þau öll upp í halarófu — skallinn á föður hans sindraði, fuglinn í hatti móður hans ruggaði eins og önd á úfinni tjörn og snöggklippt hár brytans hnykktist upp og niður; aftast, tilbúin að halla sér að handriðinu, komu ökumaðurinn, vaktmaðurinn og mjaltastúlkan Akúlína af einhverjum ástæðum, og síðastur kom svartskeggjaður bóndi frá vatnsmyllunni, sem þar með hreiðraði um sig í martröðum framtíðarinnar. Það var hann, sá sterkasti þeirra, sem bar Lúsjin ofan af háalofti út í vagninn.
Petur's reading is a bit difficult to hear, and no offense, at least on first listen sounds almost as if he is foreign... So I would like another recording by someone else.