Mál er kerfi merkja, tákna, hljóða og orða sem notuð eru saman til þess að lýsa hugtökum, hugmyndum, merkingum og hugsunum. Málfræðingar eru þeir sem að rannsaka mál, en í nútímanum var málfræði fyrst kynnt sem vísindagrein af Ferdinand de Saussure. Þeir sem að tala mál, eða nota það á annan hátt, eru taldir með sem hluti af málsamfélagi þess máls.
Tungumál er hugtak sérstaklega notað um þau mál sem að hafa hljóðkerfi. Fjölmörg tungumál eru til í heiminum í dag, ýmist með eða án ritkerfa.
Þar sem að orðið mál hefur margar merkingar í íslensku (t.d. í hugtökunum málaferli og „að taka mál af e-u“), og er ekkert annað orð tiltækt sem er sambærilegt við orðið language á ensku, þá mun orðið tungumál vera notað hér eftir sem hvert það kerfi merkja, tákna, hljóða og orða sem hægt er að rita, tala eða á annan hátt skilja.